arnthor´s life

laugardagur, október 30, 2004

Eins og við var að búast

Eins og við var að búast þá kemur af og til upp heimþrá, þar sem maður saknar þess sérstaklega sem maður tók sem sjálfsögðum hlut. Hér eru nokkur dæmi:
Frystihúsið, af og til þá á ég það til að hugsa hlýlega til þess (hvað er að mér)
Að fara í kaupfélagið, ég veit ekki hvað það er en mér hefur alltaf þótt það ánægjuleg reynsla að fara í kaupfélagið, og þá ferðin, ekki endilega að vera þar.
Að geta skotist í fjallgöngu þegar naður vill, alltaf gott að geta hreinsað hugann.
Veðrið, það er bara eitthvað við hið fjölbreytta og ýkta íslenska veðurfar, sem ég bara fíla.
Jæja nú er nóg komið af væli.
p.s. og svo sakna ég náttúrulega mömmu, búhúhú!

þriðjudagur, október 26, 2004

Danske Sprogskolen i Følle

Loksins náði ég sambandi við yfirmanninn í málaskólanum í Følle og fékk það á hreint að ég á að byrja þar næsta mánudag. Við erum búin að kaupa eldivið og erum bara að bíða eftir honum, hann á að koma einhverntímann í þessari viku, vonandi fyrr en seinna. Það er víst dálítið þrekvirki að stafla þessu hérna inní skýlið þar sem við geymum þetta en þegar það er búið verður magnað að vera til. bless í bili

mánudagur, október 25, 2004

Mikið var

já ég veit, ég gleymdi mér aðeins og hef því ekki bloggað neitt í nokkra daga. Ég fór á seinasta föstudag og keypti mér nokkur verkfæri, og á eftir að gera dálítið af því, og pantaði mér timbur og er núna búinn að smíða þessa líka flottu hillusamstæðu. Næsta verk er að smíða annað hvort hjónarúm eða skenk í stofuna, ég er alveg að finna mig í þessu, spurning hvort maður fari bara ekki að læra smiðinn eða bara húsgagnasmíði.
Er búinn að vera að skoða betur þetta nám sem ég ætlaði að fara í og er ekki alveg viss um að það henti mér nógu vel, en það ætti ekki að vera vandamál þar sem það er hægt að læra nokkurnveginn hvað sem er hérna. Jæja, það er verið að kalla á mig í mat. peace out!

mánudagur, október 18, 2004

Nokkrar myndir

hérna eru nokkrar myndir af staðnum:
Fleiri Myndir seinna.

fimmtudagur, október 14, 2004

Mér fallast hendur

Ég veit ekki hvar þetta ætlar að enda, nú þegar við erum nýbúin að segja frá Benediktu við dauðans dyr eftir furðulegt sippslys, þá byrjar Alexander að fá einhverskonar krampaköst, það byrjaði með einu á sunnudagskvöldið og á mánudeginum fórum við í heimsókn til Dýrunnar og Reynirs í Álaborg um hálf-fimm leytið fær hann aftur svona kast og svo aftur 2 tímum seinna. Við hringdum í bæði skiptin í læknaþjónustuna, til að athuga hvort við ættum ekki að koma með hann, en læknirinn sem svaraði sagði okkur að hafa ekki of miklar áhyggjur og koma bara með hann ef þetta versnaði eitthvað, sem og þetta gerði ekki. Í millitíðinni hringdi ég í eðalfírinn Heiðar Ásberg Atlason af því að ég vissi að sonur hans hafði fengið einhverskonar krampa sem mig mér var sagt að hefði líst sér eitthvað svipað og þetta hjá okkur og þegar ég heyrði lýsinguna þá var það ljóst að þetta var það sama nema ekki eins alvarlegt tilfelli. Annars var það magnað að fara til þeirra í heimsókn, enda eru þau höfðingjar heim að sækja. Við fórum ekkert að skoða á meðan við vorum þarna enda var bara fínt að hanga heima og kjafta og dreypa á góðum veigum. Reyndar fórum við Reynir að versla pizzur í verslunarmiðstöð þarna rétt hjá og keyptum í leiðinni kassa af Tuborg á 850 ískr. MAGNAÐ!!
Svo ætluðu Solla og Dýrunn reyndar að fara í einhverja föndurbúð í morgunn áður en við fórum en komu sneyptar til baka, afþví að það var búið að stela öllum dekkjunum undan bílnum þeirra.
Jæja nú fer ég að hætta, hamingju óskir til Reynirs með nýjan prentarann.
Seinna

laugardagur, október 09, 2004

Sumir dagar

Það vill svo skemmtilega til, fyrir þá sem þekkja mig ekki, að ég er þunglyndissjúklingur og hef verið í töluverðan tíma og í dag er ekki góður dagur. Ég bókstaflega finn fyrir þyngslum í höfðinu og ég er ekki skemmtilegur í umgengni. Ég held reyndar að þetta sé í rénum, ég er farinn að finna fyrir samviskubitinu sem oft fylgir, þegar maður er búinn að vera leiðinlegur við fólk sem á það ekki skilið, maður ræðst venjulega bara á þann sem er næst. En svona er lífið. Maður ætti að eiga einhvern stað sem maður gæti farið á þegar manni líður svona og verið þar einn.

föstudagur, október 08, 2004

Bíddu aðeins ég heyrði eitthvað

Hann stoppar og lítur við, vinalegt kall úr auðninni hleypir varma í kinnarnar og von í hjarta.

miðvikudagur, október 06, 2004

Heyðu bíddu nú við .....

Verður maður bara allt í einu 65 ára? Það er það sem ég vil vita! Ætli að allt lífið sé bara ein prófraun til að athuga hvort maður sé þess verðugur að rölta um bæinn, sitja á hinum og þessum bekkjum og spá í veðrið? Ef svo er þá ætla ég að vona að ég nái því prófi, því þetta eru nokkrar af mínum uppáhaldsiðjum.
Blindaður af eigin dagdraumum, horfir ungi maðurinn útum gluggann og fylgist með trjánum í garði nágrannans vagga fram og aftur, eins og ástfangið par á skóladansleik.
"Hvaða braut ætli lífið sé búið að merkja mér", hugsaði hann, og næstu hugsanir sem fylgdu á eftir byrjuðu flestar á "ég ætla" eða "fyrst ætla ég".
Á neðri hæðinni heyrði hann að faðir hans var að koma heim úr vinnunni. "Hvað sem ég geri ætla ég ekki að verða þræll eins og hann", sagði hann lágt við sjálfan sig, "ég ætla að gera eitthvað, mennta mig, sjá heiminn!" Þetta sagði hann einum og hálfum mánuði áður en hann kláraði 10. bekk og næstum nákvæmlega 13 mánuðum áður en hann barnaði kærustuna sína, 33 árum og 5 mánuðum áður en honum var sagt upp, frá starfi sem hann var búinn að vinna í 29 ár og 8 mánuði , og næstum nákvæmlega 38 árum og 5 mánuðum áður en hann lagðist til hvílu á fallegu haustkvöldi og vaknaði ekki aftur.

mánudagur, október 04, 2004

ósjálfrátt sefar sálin vitin

Það sem ég ætla að skrifa um í dag er að mestum hluta um það sem gerðist hérna í gærkveldi!
Þannig er mál að vöxtum að ég sat hérna í tölvunni og var að vinna í einhverri myndvinnslu og Andrea og Benedikta voru eitthvað að fikta við að sippa á bakvið mig. Allt í einu heyri ég einhver torkennileg hljóð, lít við og sé hvar Benedikta situr á hjánum á gólfinu og sem betur fer átta ég mig á því að hún getur ekki andað. Hún hafði einhvern veginn dottið, ekki á bakið heldur fram, og hún bara gat ekki dregið andann og tók hana í fangið og reyndi að róa hana niður, því hún var náttúrulega orðin hræðilega hrædd. Allt í einu byrjar hún að fá krampakast og ranghvolfir augunum, og verður svo máttlaus. Ég rek henni þá kinnhest til að vekja hana og eftir nokkrar sekúndur opnar hún augun en nær ekki andanum, en smátt og smátt breytist óhugnanlegt kokhljóðið í grát, ég hef aldrei verið svona feginn. Hún var nú frekar róleg það sem eftir var kvölds en fjölskyldutrúðurinn, Benedikta Líf var heil á húfi.
Allt í lagi núna er ég kominn að þeim hluta pistilsins sem útskýrir titilinn, allan tímann sem þetta var að gerast, var ég rólegur, yfirvegaður og með fullkomna sjálfstjórn. Þetta er eins og ég hafi staðið fyrir utan þetta allt saman og fylgst með einhverjum öðrum lenda í þessu, Andrea og Solla misstu skiljanlega dálítið stjórn á sjálfum sér úr hræðslu.
Þetta er eins og að þau áföll sem ég hef orðið fyrir í lífinu, sem eru nokkur, hafi gert mér kleift að geta haldið mér rólegum í svona aðstæðum. Og fyrir það er ég þakklátur.

laugardagur, október 02, 2004

List! Hvað er nú það?

Ég var að velta því fyrir mér, Nú er ég búinn að vera töluvert á ferðinni niðri í Aarhus og af og til, eins og í flestum stærri bæjum og borgum, rekst ég á hina svokölluðu róna. Og ég hef verið að pla í hver munurinn sé á rónum á kaupi og bæjar-og borgarlistamönnum. Og þegar ég segi rónum, þá hugsar fyrst um gamla, tannlausa, hlandblauta, öskrandi á þá sem fara hjá, en auðvitað eins og í öllum stéttum eru einstklingarnir mismunandi skapaðir og til eru rónar, hvort sem þið samþykkið það eður ei, sem eru bráðnauðsynlegur hluti af menningunni og lita hana oft á ekki síðri hátt en hinir svokölluðu listamenn.

Draumar!

Ætli við höfum ekki öll einhverntímann lent í einhverskonar umræðum um drauma, hvort sem það hafa verið um hvort þeir séu spádómar, undirmeðvitundin að vinna úr upplýsingum dagsins eða eitthvað annað. Ég er með eitt í viðbót, ætli draumar geti ekki líka verið til þess að gera það sem maður ætlaði alltaf að gera en af einhverjum orsökum gat ekki gert. Tökum mig sem dæmi, í nótt var mig að dreyma að ég væri að kveðja fullt af fólki sem ég kvaddi ekki áður en ég flutti til Danmörku og það var magnað, nú er það frá.
Það var nú samt einn sem var ekki alveg að ná þessu, sá eðaleinstaklingur, Benedikt Brynleifs trommari, hann hélt alltaf áfram að spyrja hvað ég ætlaði að vera lengi og ég sagði honum að það væri ekki ákveðið og hann hélt bara áfram, "Hvað ætlið þið að vera lengi", og var orðin litl reiði á endanum.
Kveðjist vinir
kveðjist í góðu
Ekki sýna homophobiu eða tepruhátt þegar þið kveðjist. Afhverju kveðjast karlmenn svona oft með bara handabandi og heilsast svo bara með handabandi, þó að þeir séu að hitta besta vin sinn eftir margra ára aðskilnað. Geri þetta sjálfur, en er að vinna í þessu.
Ég fór í gærkvöldi útí sjoppu að kaupa eldivið í kamínuna og fékk þar þetta kostaboð að kaupa 5 poka og fá þá rosaafslátt, ég náttúrulega sló til en áttaði mig svo á því þegar ég fór að ná í þessa poka, að hver þeirra er svona 25 kg og ég var gangandi. Ég tók 3 poka fyrst og hélt heim á leið. Ég var kominn svoa hálfa leið þegar ég sá frammá að þetta yrði mikil raun og þegar ég átti svona 200 metra eftir hringdi ég í Sollu til að koma á móti mér með barnavagninn og ég átti svona 30 metra eftir þegar hún kom, svo tók ég barnavagninn til að ná í þessa 2 sem eftir voru. Í dag er ég eins og ég hafi verið að keppa í tugþraut vaðandi drullu upp að öxlum, með örum orðum ég er bara sem lurkum laminn.

jæja, nóg í dag