arnthor´s life

miðvikudagur, október 06, 2004

Heyðu bíddu nú við .....

Verður maður bara allt í einu 65 ára? Það er það sem ég vil vita! Ætli að allt lífið sé bara ein prófraun til að athuga hvort maður sé þess verðugur að rölta um bæinn, sitja á hinum og þessum bekkjum og spá í veðrið? Ef svo er þá ætla ég að vona að ég nái því prófi, því þetta eru nokkrar af mínum uppáhaldsiðjum.
Blindaður af eigin dagdraumum, horfir ungi maðurinn útum gluggann og fylgist með trjánum í garði nágrannans vagga fram og aftur, eins og ástfangið par á skóladansleik.
"Hvaða braut ætli lífið sé búið að merkja mér", hugsaði hann, og næstu hugsanir sem fylgdu á eftir byrjuðu flestar á "ég ætla" eða "fyrst ætla ég".
Á neðri hæðinni heyrði hann að faðir hans var að koma heim úr vinnunni. "Hvað sem ég geri ætla ég ekki að verða þræll eins og hann", sagði hann lágt við sjálfan sig, "ég ætla að gera eitthvað, mennta mig, sjá heiminn!" Þetta sagði hann einum og hálfum mánuði áður en hann kláraði 10. bekk og næstum nákvæmlega 13 mánuðum áður en hann barnaði kærustuna sína, 33 árum og 5 mánuðum áður en honum var sagt upp, frá starfi sem hann var búinn að vinna í 29 ár og 8 mánuði , og næstum nákvæmlega 38 árum og 5 mánuðum áður en hann lagðist til hvílu á fallegu haustkvöldi og vaknaði ekki aftur.