arnthor´s life

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

óraunverulegt, en samt einhvernveginn raunverulegt 7

Þetta er aðeins glaðlegri pistill en síðast, hann mun fjalla um fjölskylduna mína og lýsa hennar uppbyggingu, og jafnframt sá seinasti í þessari ritröð. svo þið megið fara að láta í ykkur heyra, um hvað ég eigi í skrifa næst,þ.e. á það að vera saga, frásögn, skoðun eða eitthvað til að vekja deilur og skoðanaskipti!

13. Eins og áður hefur komið fram þá eignaðist ég mitt fyrsta barn, þegar ég var 18 ára og mér finnst það fullungt, allavega í mínu tilfelli. Kristófer, en það skírðum við hann, á ég með Ellý Dröfn Kristjánsdóttir. Hún er jafnaldra mín og alveg ágætis kvenkostur. Það tók mig mjög sárt þegar það slitnaði uppúr sambandi okkar en við erum mjög góðir vinir í dag og það met ég mikils. Ein af þeim ástæðum sem að mér finnst 18 ára of ungt er að ég fann það bara á sjálfum mér að ég var ekki með nógu þroskaðar tilfinningar og gat ekki gefið barninu eins mikið af mér eins og ég annars hefði átt að gera og vill meina að ég geri í dag.
þegar ég var 23 ára kynntist ég konunni sem ég kom svo til með að giftast og eignast mínu næstu börn með. Sólveig María Hjaltadóttir, eða Solla Maja, var sakleysis sveitastúlka sem bjó á Dalvík er ég krækti í hana. Solla átti tvær stelpur fyrir og svo kom ég með Kristófer svo að allt í einu var ég kominn með stóra fjölskyldu. Stelpurnar hennar Sollu, eða elstu stelpurnar okkar, heita Aníta, fædd 1985, og Andrea, fædd 1990.
Einungis 3-4 máuðum eftir að við byrjuðum okkar samband kom það í ljós að við áttum von á barni og ég ákvað strax að hætta á sjó um leið og barnið fæddist. Svo í júní 1998 hætti ég á sjó og skömmu seinna eða 18. júlí, kom ærslabelgurinn og trúðurinn Benedikta Líf í heiminn. Það var einhverra hluta vegna skrítin tilfinning að eiga stelpu, ég veit ekki afhverju, það er það bara! Það liðu 5 ár þar til næsta barn kom í heiminn, en þá kom í heiminn 11. nóvember 2003, alvarlegi glókollurinn Alexander Leví.
Í september, flutti svo fjöskyldan, að Anítu undanskildir en hún er farin að búa með kærastanum honum Snæþóri.
Afþví að það var ekki auðvelt að fella nánari lýsingu á fjölskyldumeðlimum, læt ég hana fylgja hér á eftir. Og til að stofna ekki til illinda ætla að láta þetta bara koma í aldursröð.

Solla er ákaflega ástrík og falleg kona að innan sem utan og eina ástæðan fyrir að hún hangir með mér, er að hún er hjartgóð og einnig með sjálfpíslakvöt. Við erum mjög ólík á flestan hátt og það er oftast gott. Hún er duglegasta manneskja sem ég þekki, að Alexander undanskildum þegar hann er að rusla til, og ég elska hana.

Aníta er latur orkubolti eins og systir hennar Andrea, en þar fyrir utan eru þær eins og svart og hvítt. Hún er eitthvert besta elsta systkyn sem ég veit um, enda dýrka yngri systkyni hennar hana. Ég gæti ekki verið stoltari eða ánægðari með hversu velheppnuð manneskja hún er, þó ég hefði gert hana sjálfur.

Andrea er í þversögn í einu og öllu sem hún gerir og er. Hún er jafnharðdugleg og hún er löt. Hún er einhver lífsglaðasta mannekja sem ég þekki ásamt því að get verið svo úldin að það lekur af henni. Hún er falleg en ekki á morgnana. Hún er hjálpsöm byrði. Hún hefur lífinu lit.

Kristófer er draumóramaður og góður, og þegar ég segi góður er ég ekki bara að segja að hann hafi tekið til í herberginu sínu, því að hann er einhverra hluta vegna vel innrættur, fyrir utan hvað hann getur verið latur, og bara góður maður og ég ætla að vona að það komi ekki til með að eldast af honum. Ég mun alltaf sjá eftir að hafa ekki eytt meiri tíma með honum, þegar hann var yngri en ég er að reyna að bæta það upp núna.

Benedikta er trúður, indæll og elskulegur trúður. Reyndar var eitt fyrsta orðið sem hún sagði dúi, eða trúður eins og við seinna komumst að. Hún er einhver hugrakkasta manneskja sem ég þekki og þá á ég við þegar hún byrjaði í skólanum hérna í Danmörku, 6 ára og skildi ekkert og gat ekkert tjáð sig fyrstu mánuðina, en samt var þar í 5-6 tíma á dag og kvartaði ekki. Í dag getur hún talað dönsku sem innfæddur og það er magnað að hlusta á hana.

Alexander Leví er prakkari af Guðs náð og nýtur þess að gera það sem hann má ekki. Hann er alvarlegur, en jafnframt brosmildur lítill karl. Hann á það til að koma hlaupandi á móti mér þegar ég kem heim og faðma mig að sér. Hann er tónelskur með afbrigðum og hefur alltaf verið. Jafnframt því að rusla mest til, er hann duglegasta barnið þegar kemur að því að hjálpa til við eitthvað.

Þessi orð komast að sjálfsögðu ekki nálægt því að skýra fyrir ykkur þær tilfinningar sem ég ber til þeirra. Ég elska konuna mína og börnin líklega meira en þau grunar en svoleiðis held ég að það sé með marga karlmenn. Sumir fengu meiri texta en aðrir en það hefur ekkert með tilfinningar mínar í þeirra garð að gera. Jæja núna er búið að koma þessu frá mér, ég vil biðja alla karlkyns vini mína að fara ekki að gera sér neinar vonir því ég er ekki kominn út úr skápnum, ég get talað svona afþví að ég er öruggur með mína kynhneigð.

16 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home