arnthor´s life

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

óraunverulegt, en samt einhvernveginn raunverulegt 9

14. Svona í framhaldi af því að tala um Jonathan og tónskólann, ætla ég aðeins að fara yfir minn feril í tónlist.
Eins og ég var búinn að segja byrjaði þetta allt þegar Elmar og Jónas báðu mig að stofna með sér hljómsveit, mig minnar að það hafi verið 1986, og alveg frá því og þar til ég flutti norður 1992 spiluðum ég og Jónas saman, bæði í þessu stórkostlega rokkbandi okkar og svo líka í tónskólahljómsveitum.
Svo ég byrji fyrst á þessu stórkostlega rokkbandi sem við starfræktum. Þetta band varð ekki fyrir miklum mannabreytingum í öll þessi ár, eina breytingin var þegar Elmar hætti og Andrés bróðir kom í staðinn, og þó að þetta hafi nánast alltaf verið sömu mennirnir skiptum við um nöfn á bandinu eins og sokka, það var t.d. Speed diffusion, petting, Captain dangerous Macprick, jea(fyrir misskilning) og svo einhver fleiri sem ég man bara ekki í augnablikinu. Tónlistin sem við frömdum var nánast öll frumsaminn, og þá helst af Jónasi sem var einnig söngvari og gítarleikari, var undir miklum áhrifum frá átrúnaðargoðunum Bonjovi, Metallica, Twisted Sister og snekkju bandinu.
Það var magnað að vera vera í hljómsveit litlum bæ á Íslandi, alloft fengum við bara að æfa á sviðinu í Skrúð og það ókeypis og þetta gerist eingöngu í litlum bæjum á Íslandi.
Við þóttum mikið efni og krakkarnir þekktu allnokkur lögin okkar, s.s. Where did I go wrong sem var átakanleg saga úr ástarlífi Jónasar og you don’t know sem var ballaða sem Jon Bonjovi hefði gefið vinstra eistað fyrir að hafa samið. Við spiluðum saman alveg þar til ég og Andrés fluttum norður, reyndar þurfti að ná í okkur á æfingu til að flytja.
Í tónskólanum framkvæmdum við allskyns tónlist og það sem meira var, þá vorum við mikið að taka upp. Einnig spilaði ég, ásamt félögum mínum, í tónskólanum í stórri hljómsveit með tónskólunum úr nærliggjandi fjörðum.
Eftir að ég kom norður, fór fyrsta árið í djamm með Andrési bróðir fyrir utan eitt gigg með grín pönkbandi sem við stofnuðum með tveim strákum frá Ólafsfirði.
Um haustið 1993 stofnuðum við hljómsveitina Léttlyndu Rós með Óla Þór og Gulla Helga, og ætluðum við að gera stóra hluti á íslenska ballmarkaðnum, reyndar áttum við nokkur þrælgóð gigg, spiluðum t.d. með Pláhnetunni á Dalvík, fórum með 1000 andlitum í Skagafjörðinn, svo fórum við á eigin vegum eina helgina og spiluðum magnað gigg á sauðárkróki og svo annað ekki alveg eins magnað á Skagaströnd kvöldið eftir. Sem betur fer var fyrra giggið gott svo að við sluppum á nánast sléttu eftir að hafa borgað barreikninginn okkar í Kántríbæ. Reyndar lentum við í smá ævintýri á leiðinni til Skagastrandar, þar sem bíldruslan sem við vorum á dó í smá tíma í brjáluðum snjóbyl og vorum við, ég, Gulli og Rótarinn, búnir að ákveða að ef í hart færi myndum við éta Andrés afþví að hann borðaði svo hollan mat og nota Óla söngvara sem hnífapör afþví hann var grennstur. En bíllinn fór í gang á endanum svo að bæði Andrés og Óli eru enn í fullu fjöri í dag. Hljómsveitin lagði svo upp laupanna 1994 eða 1995, man ekki alveg hvort að það var.
Þarna tók við annað tímabil þar sem eina spilamennskan sem ég sinnti var að djamma með Drésa bróðir, fyrir utan nokkrar æfingar með bandi í Reykjavík.
Svo var það árið 1997 að ég var á balli á Dalvík og spjallaði víst lengi við ungan mann um tónlist og fleira, og stuttu eftir það hringdi þessi sami maður í Sollu og spurði hvort maðurinn hennar væri við, sagði hann að hann væri gítarleikari spurði hvort við værum ekki til að prufa að spila með honum, svo ákváðum við og Andrés bróðir að hittast á café menningu næsta dag. Ég og Andrés komum aðeins á undan, og svo þegar maðurinn kom, var þetta allt annar maður en ég mundi eftir að hafa talað við. Við fórum svo í íbúðina mína á Ólafsfirði og prufuðum að taka æfingu og það var eins og við hefðum spilað saman árum saman. Svona kynntist ég Herði Hermanni Valssyni, eða Hölla Vals, eða bara Hölla.
Með fáum mjög stuttum hléum, þá er ég búinn að vera að spila með Hölla í 8 ár.
Árið 1998 stofnuðum við hljómsveitina Vampiros Lesbos á Frönskum dögum á Fáskrúðfirði og við starfræktum hana til 2003, fyrstu 2 árin með Andrés á trommum, svo eftir að hann hætti tók Benni Brynleifs, núverandi trommari 200000 naglbíta og Mannakorns og yfir höfuð fínn náungi, við í eitt ár og svo hinn ungi og efnilegi Valli, núverandi trommari Sent, í eitt ár.
Allnokkrir tónlistamenn hafa spilað með Vampiros, ber þá fyrst að geta Stebba sæta hljómborðsleikara, núverandi hljómborðsleikara Sent, Láru sólveig fiðlusnilling, Robbi rólegi hljómborðsleikarinn ofl.
Vorið 2004 stofnaði Hölli Blúsband Hölla Vals, 4 tímum fyrir fyrstu tónleikana, en það var í lagi þar sem þarna voru bara snillingar á ferð, á bassa var náttúruleg ég sjálfur, á gítar var Hölli og svo á trommum var einhver vanmetnasti trommusnillingur Íslands, Sverrir Þorleifs.
Bandið átti til skamms tíma magnað samstarf við söngdívuna Völu úr Idolinu, þar sem við sömdum og tókum upp nokkur lög. Svo flutti Vala til í eitt ár til Chile og nýr maður var tekinn inn og var það mikill hvalreki fyrir okkur, þegar gítarleikarinn Örn Kristjánsson gekk til liðs við okkur.
Svo sló bandið náttúrulega í gegn á Fiskideginum mikla á Dalvík 2004 og í kjölfarið héldum við nokkra tónleika í Ungó á Dalvík og voru þeir teknir upp.
Skömmu seinna fluttum við allir í burtu á til Danmörku og hinir til Rvk.
Ég er búinn að vera að spila með nokkrum hljómsveitum hérna úti, ásamt því að vera að vinna að lögum með frábærum söngvara héðan. Fyrir nokkrum mánuðum flutti svo Hölli til Århus og gekk beint inní hljómsveit sem ég var að stofna með Andrési bróðir og áðurnefndun söngvara sem heitir Lars Flensborg. Við erum búnir að vera að taka upp núna undanfarið og ætlum og okkur að leggja alla vinsældarlista að fótum okkar. Hljómsveitin hefur hlotið nafnið June Variety.
Fyrir utan að vera spilafélagi minn, er Hölli Vinur minn.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

ég afsaka biðina

því miður seinkar pistlinum um 2 daga og verður hann því ekki tilbúinn fyrr en að kvöldi þriðjudags.

föstudagur, nóvember 11, 2005

útgáfu tilkynning

næsti pistill verður settur á netið 13. nóvember n.k., kl. 20 að íslenskum tíma.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

óraunverulegt, en samt einhvernveginn raunverulegt 8

Ég held bara að ég taki Söndru á orðinu og fjalli aðeins um Jonathan Buckley.

14 Eins og ég sagði byrjaði ég i tónskóla þegar ég var á 12. aldursári. Andrés bróðir var þegar í tónskólanum að læra á hljómborð og var búinn að segja að sér líkaði mjög vel við þennan “útlending” sem var að kenna. Ég var reyndar búinn að sjá Jonathan áður, það má segja að hann hafi stungið í stúf í litla sjávarþorpinu okkar þar sem honum sást bregða fyrir í skærgulu úlpunni sinni. Ég man nú ekki eftir fyrsta deginum mínum í skólanum en annars man ég eftir nánast öllum vetrinum og það verður erfitt að finna eitthvað eitt eða tvennt til að tala um.
Það var eftir að ég kynntist Jonathan sem ég fyrst varð vitni að fordómum og skildi hvað orðið þýddi. Ég vissi alveg að Jonathan var ekki eins og fólkið í litla þorpinu okkar, þá er ég ekki að meina að hann hafi verið eitthvað vankaður í höfðinu eða annað á þeim nótum, þeir sem kannast við hann og/eða þekktu vita hvað ég er að meina.
Hann var fyrsta fullorðna manneskjan sem kom ekki fram við mig eins og smábarn og kannski var það þess vegna sem að hann hafði þessi áhrif á okkur sem héldum til í tónskólanum á þessum tíma. Mig minnir að hann hafi eingöngu verið á Fáskrúðsfirði í 3 ár en það voru líka mögnuð 3 ár, en ég held að hann hafi haft ævarandi áhrif á þá sem þekktu hann þar.
Það breikkaði töluvert hjá mér sjóndeildarhringinn að fá hann sem vin og kennara, ekki bara þann sem sneri að tónlist heldur mörgum þáttum.
Ég held að það hafi ekki verið og muni aldrei verða metið við Jonathan hve mikið hann lyfti tónskólanum upp, með t.d. að koma með nýtt kennslu efni og koma því í kring að keypt voru ný hljóðfæri og fleiri tæki til tónlistariðkunnar, ég spilaði á Fáskrúðsfirði fyrir nokkrum árum og komst þá að raun um að það sem hann keypti vara annað hvort í niðurníslu eða horfið og ekki nýtt komið í staðinn. Það finnst mér afar sorglegt og einnig greinilega vísun á að þeir sem standa þarna fyrir tónskólanum séu vanhæfir til starfsins og vill benda á að til að kaupa ný hljóðfæri fyrir tónskólann hélt Jonathan marathon tónleika með nemendum sínum til að fjármagna kaupin, svo fór hann til Englands og keypti það sem vantaði.
En á öðrum nótum eitt sinn vorum við í tónskólanum að kvöldi til, ég, Andrés bróðir, Jónas og Jonathan, og í miðju lagi sagði hann okkur að hætta og hlusta. Mikill skarkali heyrðist ofan af efri hæð hússins, eins og það væri verið að leggja allt í rúst. Þegar hávaðinn leið svo hjá kíktum við uppá loft og það sá hvergi á neinu. Tónskólinn var þá til húsa þar sem bæjarskrifstofurnar eru núna. spúkí.
Eftir að Jonathan fór svo, var ég sambandi við hann af og til en svo misstum alveg sjónar af hvor öðrum. Ég hef svo reynt seinasta eitt og hálft ár að finna hann án árangurs þar núna um daginn að ég fann hann í gegnum heimasíðu fyrir áhugaljósmyndara.
Við höfum ákveðið að hittast næsta sumar hérna í Danmörku

laugardagur, nóvember 05, 2005

Niðurlag og hugsanlega byrjun annars

Vegna góðra viðbragða við þessum pistlum mínum hef ég ákveðið að, ef æstir lesendur mínirvilja, halda áfram á svipaðri braut en í staðinn fyrir að rekja lífshlaupið eins innkaupalista ætla ég að taka fyrir einstaka atburði og fólk, eins og í nokkrum af undanförnum pistlum. Og enn sem fyrr tek ég við hugmyndum í gegnum kommentin.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

óraunverulegt, en samt einhvernveginn raunverulegt 7

Þetta er aðeins glaðlegri pistill en síðast, hann mun fjalla um fjölskylduna mína og lýsa hennar uppbyggingu, og jafnframt sá seinasti í þessari ritröð. svo þið megið fara að láta í ykkur heyra, um hvað ég eigi í skrifa næst,þ.e. á það að vera saga, frásögn, skoðun eða eitthvað til að vekja deilur og skoðanaskipti!

13. Eins og áður hefur komið fram þá eignaðist ég mitt fyrsta barn, þegar ég var 18 ára og mér finnst það fullungt, allavega í mínu tilfelli. Kristófer, en það skírðum við hann, á ég með Ellý Dröfn Kristjánsdóttir. Hún er jafnaldra mín og alveg ágætis kvenkostur. Það tók mig mjög sárt þegar það slitnaði uppúr sambandi okkar en við erum mjög góðir vinir í dag og það met ég mikils. Ein af þeim ástæðum sem að mér finnst 18 ára of ungt er að ég fann það bara á sjálfum mér að ég var ekki með nógu þroskaðar tilfinningar og gat ekki gefið barninu eins mikið af mér eins og ég annars hefði átt að gera og vill meina að ég geri í dag.
þegar ég var 23 ára kynntist ég konunni sem ég kom svo til með að giftast og eignast mínu næstu börn með. Sólveig María Hjaltadóttir, eða Solla Maja, var sakleysis sveitastúlka sem bjó á Dalvík er ég krækti í hana. Solla átti tvær stelpur fyrir og svo kom ég með Kristófer svo að allt í einu var ég kominn með stóra fjölskyldu. Stelpurnar hennar Sollu, eða elstu stelpurnar okkar, heita Aníta, fædd 1985, og Andrea, fædd 1990.
Einungis 3-4 máuðum eftir að við byrjuðum okkar samband kom það í ljós að við áttum von á barni og ég ákvað strax að hætta á sjó um leið og barnið fæddist. Svo í júní 1998 hætti ég á sjó og skömmu seinna eða 18. júlí, kom ærslabelgurinn og trúðurinn Benedikta Líf í heiminn. Það var einhverra hluta vegna skrítin tilfinning að eiga stelpu, ég veit ekki afhverju, það er það bara! Það liðu 5 ár þar til næsta barn kom í heiminn, en þá kom í heiminn 11. nóvember 2003, alvarlegi glókollurinn Alexander Leví.
Í september, flutti svo fjöskyldan, að Anítu undanskildir en hún er farin að búa með kærastanum honum Snæþóri.
Afþví að það var ekki auðvelt að fella nánari lýsingu á fjölskyldumeðlimum, læt ég hana fylgja hér á eftir. Og til að stofna ekki til illinda ætla að láta þetta bara koma í aldursröð.

Solla er ákaflega ástrík og falleg kona að innan sem utan og eina ástæðan fyrir að hún hangir með mér, er að hún er hjartgóð og einnig með sjálfpíslakvöt. Við erum mjög ólík á flestan hátt og það er oftast gott. Hún er duglegasta manneskja sem ég þekki, að Alexander undanskildum þegar hann er að rusla til, og ég elska hana.

Aníta er latur orkubolti eins og systir hennar Andrea, en þar fyrir utan eru þær eins og svart og hvítt. Hún er eitthvert besta elsta systkyn sem ég veit um, enda dýrka yngri systkyni hennar hana. Ég gæti ekki verið stoltari eða ánægðari með hversu velheppnuð manneskja hún er, þó ég hefði gert hana sjálfur.

Andrea er í þversögn í einu og öllu sem hún gerir og er. Hún er jafnharðdugleg og hún er löt. Hún er einhver lífsglaðasta mannekja sem ég þekki ásamt því að get verið svo úldin að það lekur af henni. Hún er falleg en ekki á morgnana. Hún er hjálpsöm byrði. Hún hefur lífinu lit.

Kristófer er draumóramaður og góður, og þegar ég segi góður er ég ekki bara að segja að hann hafi tekið til í herberginu sínu, því að hann er einhverra hluta vegna vel innrættur, fyrir utan hvað hann getur verið latur, og bara góður maður og ég ætla að vona að það komi ekki til með að eldast af honum. Ég mun alltaf sjá eftir að hafa ekki eytt meiri tíma með honum, þegar hann var yngri en ég er að reyna að bæta það upp núna.

Benedikta er trúður, indæll og elskulegur trúður. Reyndar var eitt fyrsta orðið sem hún sagði dúi, eða trúður eins og við seinna komumst að. Hún er einhver hugrakkasta manneskja sem ég þekki og þá á ég við þegar hún byrjaði í skólanum hérna í Danmörku, 6 ára og skildi ekkert og gat ekkert tjáð sig fyrstu mánuðina, en samt var þar í 5-6 tíma á dag og kvartaði ekki. Í dag getur hún talað dönsku sem innfæddur og það er magnað að hlusta á hana.

Alexander Leví er prakkari af Guðs náð og nýtur þess að gera það sem hann má ekki. Hann er alvarlegur, en jafnframt brosmildur lítill karl. Hann á það til að koma hlaupandi á móti mér þegar ég kem heim og faðma mig að sér. Hann er tónelskur með afbrigðum og hefur alltaf verið. Jafnframt því að rusla mest til, er hann duglegasta barnið þegar kemur að því að hjálpa til við eitthvað.

Þessi orð komast að sjálfsögðu ekki nálægt því að skýra fyrir ykkur þær tilfinningar sem ég ber til þeirra. Ég elska konuna mína og börnin líklega meira en þau grunar en svoleiðis held ég að það sé með marga karlmenn. Sumir fengu meiri texta en aðrir en það hefur ekkert með tilfinningar mínar í þeirra garð að gera. Jæja núna er búið að koma þessu frá mér, ég vil biðja alla karlkyns vini mína að fara ekki að gera sér neinar vonir því ég er ekki kominn út úr skápnum, ég get talað svona afþví að ég er öruggur með mína kynhneigð.